Sigríður Bogadóttir 120 ára minning                        2019

Lífshlaup Sigríðar Bogadóttur

Friðrikka Sigríður Bogadóttir ( Sigga Boga ) var fædd að Uppsölum í Seyðisfirði í Súðavíkurhreppi þann 28. maí 1899, dóttir hjónanna Rósu Aradóttur og Boga Benediktssonar

Bogi Benediktsson ( 1865 - 1907 ) og Rósa Aradóttir ( 1875 - 1939 ) með eldri börn sín.

Jóhann Stefán  ( 1903 ), Ari Guðmundur ( 1901 ), Þorgerður ( 1896 ), Friðrikka Sigríður ( 1899 ), á myndina vantar Bjarna Guðmund, hann fæddist í janúar 1907, faðir hans lést í oktober 1907.

Rósa Aradóttir

Þorbjörn Eggertsson

Rósa giftist síðan aftur, Þorbirni Egertssyni ( 1880 -1962 ). 

Börn þeirra Eggert ( 1911 ) og Guðbjörg ( 1913 ).

Sigga elst upp á Uppsölum til 6 ára aldurs, en þá flytur fjölskyldan út í Fót ( Folafót ).

Bogi hafði ráðið sig á sexæringinn Sigurfara, hjá Guðmundi Guðmundssyni, Egilssonar bónda á Hjöllum í Skötufirði. Guðmundur var bróðir Hjálmars í Meiri Hlíð og Egils Guðmundssonar í Bolungarvík.

Húsið sem fjölskyldan flutti í nefndist Tjaldtangi, var yst á Folafæti.

Á þessu korti sjást þeir staðir sem tengjast æskuárum Siggu, Uppsalir og Eyri í Seyðisfirði, Folafótur og Tjaldtangi í Hestfirði, Vigur og Hvítanes í Skötufirði. Kortið er klippt úr Vestfjarðakorti teiknað af Jóni Hróbjartssyni.

Það er 14 október að haldið er í róður á Sigurfara, báturinn kom ekki heim aftur, talið var að hvalur hafi grandað bátnum, 5 menn fórust, aðeins einn maður komst af. 

Einn þeirra sem fórst með bátnum var Bogi, faðir Siggu.

Ítrarleg frásögn af slysinu er í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, 7 árgangur 1962, ritað af Bjarna Sigurðssyni frá Vigur.

  

Sexæringur í Ísafjarðardjúpi. Mynd af málverki eftir Bjarna Jónsson.

Eftir slysið bjóðast Gunnar Halldórsson ( 1881 ), fóstursonur séra Sigurðar Stefánssonar í Vigur og kona hans Guðfinna Hálfdánardóttir ( 1883 ) til þess að taka Siggu í fóstur.

Elst hún upp í Vigur, sækir skóla í þrjá vetur að Hvítanesi í Skötufirði, fjórða veturinn sækir hún skóla að Eyri í Seyðisfirði, hún fermist vorið eftir. 

Fósturforeldrar hennar vilja síðan fara að búa uppi á landi, Var um að velja Hvítanes í Skötufirði eða Hól í Bolungarvík.

Fluttu þau síðan að Hóli í Bolungarvík, árin þar urðu tólf hjá Siggu.

Hóll í Bolungarvík _ 1944. Málverk eftir Veturliða Gunnarsson.

Nánari lýsingu á æskuárum hennar er að finna í kafla hér " ÆSKUMINNINGAR", er hún segir sjálf frá.

 

Sigga kynntist konu sem segja má að hafi verið það sem kallað var umkomuleysingi.

Ágúst Vigfússon skrifar um hana í bók sinni " Mörg eru geð guma, sagt frá samtíðarmönnum ".  Aðalbjörg Þórarinsdóttir ( Bjagga gamla ).  Ágúst skrifar um seinni ár hennar í Bolungarvík , Sigga sendir honum síðar frásögn af kynnum hennar af Bjöggu á hennar fyrri árum.

Saga Ágústar birtist í Morgunblaðinu, hér neðar er tengill á hana.

 

Það sem fer hér á eftir er allt tengt við Bolungarvík.

 

Guðjón Bjarnason f. 12. jan 1885 og kona hans Ólafía Margrét Helga Arnórsdóttir f. 4. júní 1896, höfðu búið á Suðureyri.

Þau eignuðust 4 börn, þau voru:

Jóhannes ( 1918 )

Þorgerður Guðrún ( 1920 )

Arnóra Friðrika Salóme ( 1922 )

Jóhann Ásgrímur (1923 )

Guðjón og Ólafía voru flutt til Bolungarvíkur og lést Ólafía Margrét þar í ágúst 1923.

Þá þurfti Guðjón að koma yngri börnunum fyrir, í fóstur.

Salóme fer til Arnfríðar Steinunnar Þorkelsdóttur og Páls Jósúasonar í Skálavík í Hólshreppi.

Jóhanna Sigríður Guðbrandsdóttir og Ásgrímur Jósefsson á Suðureyri taka Jóhann Ásgrím.

Guðjón er með eldri börnin í Bolungarvík.

Ég hef ekki fulla vissu, en hef ábendingu um að hann hafi flutt í hús þar sem nú er Þuríðarbraut 7, það hús mun Gunnar Halldórsson fóstri Siggu hafa byggt, líklegast hefur Sigga komið frá Hóli og verið ráðskona hjá Guðjóni þar,  eins og algengt mun hafa verið, að einhleypir karlmenn og ekklar hafi ráðið til sín ráðskonur til að sjá um börn sín og heimilisstörfin.

Gunnar Halldórsson fósturfaðir Siggu var hálfbróðir Ólafíu Margrétar ( 1896 ) og Valgerðar Ólafar ( 1889 ), " bilaðist snemma á heilsu og dó 15 maí 1933 "

Synir Gunnars voru Högni Gunnarsson ( 1906 ) atvinnurekandi er kemur við sögu í verkalýðsbaráttu Guðjóns, og Halldór Gunnarsson ( 1911 ), skipstjóri á Ísafirði.

Guðjón og Sigríður giftast 26. september 1925. Sigríður er þá 26 ára en Guðjón 40 ára.

Þau flytja síðan í gamla verbúð við Hafnargötuna.

Kort er sýnir staðsetningu " Búðarinnar "

" Búðin " sem þau bjuggu í, er húsið fyrir miðri mynd, þau bjuggu í endanum, til vinstri á myndinni.

 

Í gögnum frá Geir Guðmundssyni skrifar hann. " Þetta hús stóð við innri gafl Gulubúðar, áður hét Gulabúð Breiðsbúð og Breiðsvör á kambinum.

" Innri búðin stóð upp og ofan með stafn að sjó, hún var einlyft með porti og ósundurþiljuð uppi og niðri. Annar hliðarveggur úr torfi og hinn milliveggurinn við næstu búð. Torf var á þaki. Stærð búðarinnar var 5,80 m að lengd 4,40 m á breidd, hæð 3,00 m, gluggar 4. "

Í þessu húsi var Guðmundur Hafsteinn Guðmundsson með verbúð í efri enda, nær göunni. Guðmundur var með mótorbátinn Ægi, fyrir Pétur Oddson, en í neðri endanum var verbúð Maríusar Andréssonar, hann var með Æskuna.

Er þessar búðir lögðust af sem verbúðir áttu Guðjón Bjarnason og Sigríður Bogadóttir og fjölskylda heima í efri endanum og var þá búið að þilja hana innan og klæða og byggja skúr við báða endana.  Síðar keypti Hafliði H. Hafliðason  þennan enda og notaði sem skósmíðaverkstæði í mörg ár. Neðri endann eignuðust Jens Þórðarson og Halldóra Guðrún og fjölskylda, og síðar Halldóra Hjálmarsdóttir og Hallgrímur Jónsson og fjölskylda og enn aðrir síðar. Lýsingin á búðinni er 9 árum áður en Guðjón og Sigríður flyta þangað.

Upplýsingar úr gögnum frá Geir Guðmundssyni.

Allt vatn til matargerðar og þvotta þurfti að sækja í brunn, sem var reyndar stutt frá, við Hafsteinsstaði, sömuleiðis þurfti að bera út allt affallsvatn og hella úr fötunni frá kamrinum. Þarna mun hafa verið kolavél til eldunar og upphitunar, þurfti að bera kolin inn og öskuna út.

Þau voru þarna 6 í heimili og Sigga þurfti að sjá um matseld og annað heimilishald við erfiðar aðstæður. Sigga tók að sér saumaskap, voru aðstæðurnar þannig að hún hafði lítið borð í eldunarkróknum, þar var hún með handsnúna saumavél og saumaskapinn, sem hún þurfti svo að taka saman þegar kom að matmálstímum.

Samtíðarmenn hennar hafa borið að þó þröngt hafi verið og lítil efni hafi allt verið hreint og snyrtilegt, hún var listfeng og iðin, lífsglöð og bjartsýn.

Í fjölskyldunni voru Jóhannes og Þorgerður, einnig tóku þau að sér Ólafíu Margréti Helgu Eyjólfsdóttur f. 1928, ( Magga Eyjólfs ), 6 mánaða gamla í fóstur, dóttur Valgerðar Ólafar Arnórsdóttur ( 1889 ) og Eyjólfs Guðmundssonar ( 1885 ). 

Valgerður og Eyjólfur áttu 7 börn, var Magga yngst  þeirra. Valgerður Ólöf lést 1933.

Valgerður var systir Ólafíu Margrétar Helgu ( 1896 ).

Einnig tóku þau að sér dreng sem var frá Tungu ( Þjóðólfstungu ), Gunnar Jón Jónsson    ( Dúnni, f. 1932 ). Foreldrar hans voru Sigurlína Ingibjörg Þorleifsdóttir og Jón Eyfirðingur Jónsson, móðir hans lést í maí 1939, við útför Sigurlínu sátu börn hennar á fremsta bekk, var Gunnar yngstur barnanna. Þá sgðist Sigríður hafa hugsað " Þennan dreng ætlaði hún að taka að sér ef hún fengi það ", sem svo varð síðar. Ekki er vitað með vissu hvenær hann kom til hennar, líklega 1940-1941.

 

Systurdæturnar Margrét og Þorgerður

 

Guðjón og Sigga bjuggu alltaf við þröngan kost. Guðjón vann mikið að verkalýðsmálum og hafði það mikil áhrif á afkomu þeirra. Einnig var atvinnuleysi mikið. Hann átti þátt í að endurvekja verkalýðsfélagið sem stofnað hafði verið 1926. Nýja verkalýðsfélagið var stofnað 1931 og var Guðjón kosinn formaður þess, gengdi hann formennsku til 1942.

Baráttusögu verkalýðsfélagsins eru gerð góð skil í Sögu Bolungarvíkur, 2 bindi, einnig er þar frásögn af stofnun pöntunarfélagsins Hvöt, sem rekið var frá 1937 - 1940. " Var Guðjón Bjarnason þar við afgreiðslu ".

Kaupfélag Ísfirðinga stofnar kaupfélagsdeild í Bolungarvík árið 1943, yfirtekur það eignir pöntunarfélagsins og er reist lítið verslunarhús ( Samvinnan 1950 )

 

Vitnað í skrif Karvels Pálmasonar frænda Siggu er hann skrifaði í minningargrein, þá verandi formaður Verkalýðsfélags og sjómannafélags Bolungarvíkur.

" Það var fleira sem hvíldi á herðum frænku minnar. Árið 1931 var stofnað Verkalýðs og sjómannafélag , var formaður þess kosinn Guðjón Bjarnason, eiginmaður Siggu. Guðjón var mikill hugsjónamaður, einlægur verkalýðssinni og átti gott með að laða saman ólík sjónarmið til samstilltrar baráttu. Af því veitti ekki á þessum tímum. Það var því ekki vandalaust af fátækum heimilisföður, að taka að sér forystu fyrir félagsskap, sem af mörgum var ekki bara illa liðinn, heldur fordæmdur og talinn eitt mesta óþurftarverk sem til hafði verið stofnað í Bolungarvík. Svo langt var gengið af sumum atvinnurekendum að atvinnumissi var þeim hótað sem með einhverjum hætti voru viðriðnir félagið.

Og sú hótun var í sumum tilvikum framkvæmd og bitnaði meðal annars á Guðjóni, sem og fleira sem hann og fjölskylda hans mátti þola, fyrir það að hann skyldi leyfa sér, ásamt öðrum, að leiða fólk á þessum örbrigðartímum til samstöðu, takast hönd í hönd og treysta samtakamáttinn, minnugt þess að sameinaðir ströndum við en sundraðir föllum  við.         

En félagið, undir forystu Guðjóns, stóð af sér öll illviðri og storma þessa umbrotatíma hér í Bolungarvík. Hann sigldi þessu fari sínu og annarra heilu í höfn og skilaði því í öruggri umgjörð til þeirra sem við áttu að taka.

Því rifja ég þetta upp með Guðjón til að minna á að það var ekki bara hann og aðrir, sem til forystu veljast í verkalýðshreyfingum, sem fórna. Makinn, börnin og allt venslaliðið fórnaði miklu, að minnsta kosti á þessum tíma, vegna afskipta af verkalýðsmálum.

Guðjón varði félagið sem honum var trúað fyrir í eldlínu út á við, en að sjálfsögðu kom það í hlut Siggu, sem húsmóður að vera bakhjarlinn, hinn trausti grunnur innan heimilisins, sem líka þurfti að verja og það brást ekki í hennar höndum. Hún var því eitt að mörgum lífakkerum, sem varð til þess að Verkalýðs og Sjómannafélag Bolungarvíkur hefur dafnað og orðið Bolungarvík til blessunar.

Bolvískir launþegar eiga því Guðjóni og Siggu mikið að þakka og raunar Bolvíkingar allir." .

Skutull 21/5/1932

Það varð ekki að þessi gjörningur næði fram að ganga. Þetta bréf ber með sér að fátækranefnd og hreppsnefn eru sammála að taka upp þá stefnu að nota sér vald, sem lög heimila til þess að framfærslukostnaður þurftarmanna verði sem léttastur á hreppnum.

Á þessum tíma er Jóhannes 14 ára, Þorgerður 12 ára og Margrét 4 ára.

 

Síðar gat hann beitt sér í málefnum hreppsins, náði hann kjöri í hreppsnefnd 1936 og í skólanefnd, starfaði hann þar eins og honum entist aldur til.

Í hreppsnefndarkosningum 1938 fengu A listi (Alþýðuflokkur og Framsókn) 159 atkvæði og 3 menn. B listi ( Sjálfstæðisflokkur ) 180 atkvæði og 4 menn.    

Einar Guðfinnsson  Sj.                    180 atkv.

Guðjón Bjarnason  Alþ/Fr.             159 atkv.

Kristján Ólafsson     Sj.                      90 atkv.

Þórður Hjaltason    Alþ/Fr.                80 atkv.

Bárður Jónsson          Sj.                     60 atkv.

Sveinn Halldórsson  Alþ/Fr.               53 atkv.

Jóhannes Teitsson     Sj.                     45 atkv.

______________________________________________

Jens E Níelsson         Alþ/Fr.                22 atkv.

 

 

 

Guðjón söng í kirkjukór Hólskirkju og með Karlakór Bolungarvíkur.

 

Guðjón lést 10 maí 1942, 57 ára gamall, höfðu þau Guðjón og Sigríður þá verið gift í 17 ár, var það brjóstveikin ( berklarnir ) sem varð hans banamein.

 

Ástæða þess að sagt er frá baráttusögu Guðjóns er að fjölskyldan galt fyrir hugsjón hans, baráttunni fyrir verkalýðinn.

Sigga stóð þétt með honum og sá um heimilið af litlum efnum.

Gunnar veiktist af berklum, hann telur að hann hafi veikst síðla árs 1941, hefur sennilega smitast af Guðjóni, telur Gunnar að hann hafi verið á spítalanum á Ísafirði í marga mánuði, hátt í ár og lá síðan rúmfastur heima. Hann minnist þess að Sigga hafi komið, oft vikulega að heimsækja hann á spítalann, sem var ekki auðvelt á þeim tíma.

Eftir andlát Guðjóns átti Sigga í miklum erfiðleikum og barst það inn á borð hreppsnefndar, mun aftur hafa verið rætt að skipta fjölskyldunni, en hún sagðist hafa átt þar skeleggan stuðningsmann sem baðist fyrir hana og studdi hana eftir sinni bestu getu. Var það Kristján Ólafsson á Geirastöðum, segir hún að hann hafi barist fyrir hana, barið í borðið og sagt, " þið hreyfið ekki við henni Sigríði ". Hún sagði hann bjargvætt sinn. Hún sagðist einnig hafa fundið fyrir andófi nokkurra samborgara sinna, sem ekki höfðu verið sáttir við baráttu Guðjóns.

Jóhannes fór 1939 á Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi, sem var að hefja starfsemi sína, útskrifaðist hann með fyrsta áfanga skólans tveim árum seinna.

Þorgerður var flutt að heiman.  Magga fermdist þetta vor.   ( 1942 )           

Þegar Jóhannes kom heim úr garðyrkjunáminu fór hann að vinna hjá kaupfélagsdeildinni og varð  hann fyrsti kaupfélagsstjóri útibúsins.

Þau flytja síðan í Falshúsið, sem þá var bústaður lögreglustjóra, sem þá var Axel Tuliníus, fengu þau inni á efri hæðinni. ( Í dag Miðstræti 1 ).

Sigga var áfram að taka að sér saumamennsku.

Magga byrjaði snemma að vinna í frystihúsinu, einnig við afgreiðslustörf í kaupfélaginu. Hún vann í um það bil 10 ár á sjúkraskýlinu, veitti því forstöðu um tíma. Starfaði í Sparisjóði Bolungarvíkur í yfir 30 ár.

Gunnar byrjaði snemma að sendast fyrir kaupfélagið, man hann eftir að hafa verið að sendast niður á brimbrjót með einhverskonar kerru að sækja varning fyrir kaupfélagið. Hann fór líka að vinna í frystihúsinu. Við byggingu verkamannabústaðanna var hann að bera vatn í fötum í steypuna, það átti að borga honum kvenmannskaup, eins og það var kallað þá, en karlarnir sem unnu með honum heimtuðu að hann fengi sama kaup og þeir, og hann fékk það.

Á árunum 1949 - 1951 var hann á Hugrúnu með Leifi bróður sínum, á síld á sumrin og í vöruflutningum. Um þetta leiti fer hann að heiman, og hefur alla sína starfsæfi stundað sjómennsku.

 

GUÐJÓN

Enn bættist í hópinn hjá þeim, árið 1945 fengu þær Sigga og Magga sendingu að sunnan, kom til þeirra  drengur á fjórða ári, sonur Þorgerðar fósturdóttur  / fóstursystur þeirra, sem þær fengu til umsjár.

ÞORGERÐUR OG GUÐJÓN

Saman sáu þær um uppeldið á honum. Tóku að sér að hafa hemil á þessum dreng sem kom úr allt öðru umhverfi og þurfti hann að aðlagast nýjum aðstæðum, ílentist hann hjá þeim í rúm 30 ár.

 

Jóhannes tók þátt í að stofna byggingarfélag verkamanna ásamt Jóni Tímóteussyni og Ágústi Vigfússyni.

 

Skutull 5 september 1947

Verkamannabústaðir í Bolungarvík.

Fyrir um það bil þremur árum síðan var stofnað Byggingarfélag verkamanna í Bolungarvík. Hóf félagið þegar undirbúning að byggingaframkvæmdum, og í júlí í fyrra var byrjað að grafa fyrir grunni fyrsta hússins. Í fyrrasumar voru svo steypt upp tvö hús og kjallarahæð þess þriðja. Nú er fyrsta húsið fullgert að kalla, og verður flutt í það um þessar mundir. Hin húsin tvö verða íbúðarfær um áramót, ef ekki reynist ókleyft að útvega til þeirra ýmislegt smávegis, sem til þeirra vantar. Í hverju húsi eru tvær íbúðir, og er hver þeirra þrjú herbergi og eldhús. Sérinngangur og þvottahús er fyrir hverja íbúð, einnig gott geymsluherbergi og bað. Byggingameistari hefir verið Bjarni Magnússon bóndi í Tröð, og hefir hann sýnt mikinn dugnað og fyllstu hagsýni við framkvæmdirnar. Formaður Byggingafélags verkamanna í Bolungavík er Jóhannes Guðjónsson, Kaupfélagsstjóri.  Hefir hann sýnt óþreytandi dugnað við útvegun lána og efnis til bygginganna og þannig átt drýgstan þáttinn í, að byggingarnar eru þó komnar þetta áleiðis, þrátt fyrir þá ótrúlegu erfiðleika, sem eru í sambandi við allar byggingaframkvæmdir. Jóhannes veit líka af eigin raun, hversu skórinn kreppir að fjölda Bolvíkinga í húsnæðismálunum. Hann hefir sjálfur alist upp við lélegt húsnæði hinna umbreyttu verbúða, sem svo margir eiga þar við að búa. Þess vegna gengur hann að því sem hugsjón að koma upp verkamanna bústöðum fyrir alþýðufólkið í Bolungavík. Að vísu má hann búast við miklum erfiðleikum og töfum á þeirri leið að góðu og göfugu marki. En hér er um eitt hið allra brýnasta nauðsynjamál alþýðufólksins í Bolungavík að ræða. Og fyrir einbeittum og samstilltum vilja víkja allir erfiðleikar að lokum. Þrátt fyrir alla erfiðleika, sem að vísu sýnast ósigrandi í bili, mun verkamanna bústöðum Bolvíkinga fjölga á næstu árum, enda er þess ærin þörf og óvíða brýnni. Fyrstu verkamanna-bústöðunum í Bolungavík hefir verið valinn ágætur staður, og húsin eru yfirlætislaus, en haganlega innréttuð og vönduð að öllum frágangi. Margir hefðu óskað þess, að hægt hefði verið að ráðast í byggingu fleiri húsa, en þess var ekki kostur, enda ekki þá vaknaður almennur skilningur verkamanna á því, hvílíkt velferðarmál hér væri á ferðinni. En nú er sá skilningur vaknaður. Og hálfnað er verk, þá hafið er. Byrjunin er líka síður en svo ómyndarleg. Það er fast að 30 manns, sem um næstu áramót verða búsettir í verkamanna-bústöðunum í Bolungavík. Vill Skutull óska öllum þeim, sem að máli þessu hafa unnið, svo og þeim, sem hinna nýju húsa skulu njóta, til hamingju með góða byrjun að miklu og þörfu verk.

Viðauki: Um raflagnir sá Gunnar Sigtryggsson, rafvirkjameistari, málningarvinnuna unnu bræðurnir frá G.E.Sæmundssyni, frá Ísafirði, um pípulagnir sá Guðmundur Magnússon á Hóli og múrari var Kristinn Þórðarson.

Jóhannes flytur í verkamannabústaðinn að Skólastíg 15 og býr með Áslaugu Jónu Olsen Jóhannsdóttur, þau gifta sig 1949 og 2 elstu börn þeirra fæðast þar.

Eru þau þar til um 1951 er þau flytja suður.  Jóhannes fór fljótlega til sjós, var á togara, einnig vann hann um tíma á Keflavíkurvellinum.

Síðar hjá kexverksmiðjunni Esju, sem sölumaður. Ráku hjónin, Jóhannes og Áslaug lengi regnfatagerðina Vopna í Kópavogi.

Sigga og Magga flytja inn í kjallarahæðina í verkamannabústaðnum hjá Jóhannesi. Magga var í sambúð með Karli Þórhallssyni  ( 1920 - 1997 ),  Valur sonur þeirra fæðist þar

Meðan á byggingu verkamannabústaðanna tók Sigga að sér kostgangara., verkamenn og iðnaðarmenn sem unnu að byggingu húsanna.

Hún kenndi einnig handavinnu í barnaskólanum í nokkur ár.

Úr verkamannabústaðnum flytjum við í lítið steinhús, fyrrum verbúð, er var að Hafnargötu 102.

Fyrri íbúar Kristján Jóhannesson og Rannveig Ásgeirsdóttir. 

Hafnargata 102

.Þegar þær Sigríður og Margrét flytja í húsið er þar kolaeldavél sem einnig hitaði húsið, svefnrýmið var uppi á loftinu, í gólfinu var gat upp af eldavélinni sem hitinn frá eldavélinni átti að hita upp á loftið. Skúrinn á næstu mynd mynd var kolageymsla. Dúfurnar hans Valla bjuggu þar á loftinu. Eftir að " mæðgurnar" komu í húsið fengu þær olíubrennara á eldavélina.

Þarna búum við til 1968, Ingþór sonur Möggu fæðist þarna 1963.

Þó þetta hús hafi verið lítið og þröngt búið, var notalegt að vera þarna.

Sigga var mjög iðin gerði ennþá mikið af því að sauma og gera hannyrðir, allt fór fram í eldhúsinu.

Sigga var mjög gestrisin , var oft þröngt setinn bekkurinn þegar vinkonurnar komu í heimsókir.

Ég nefni bara örfáar, Jónína Sulebust, Jónína Tímóteusdóttir, Jónína Jóelsdóttir, Jóhanna Pétursdóttir, Jóhanna Guðmundsdóttir, Guðjóna Guðjónsdóttir kom oft og hjápaði henni og fór í ófáar sendiferðir fyrir hana.

 

Þessi mynd er frá seinni tíma, skúrinn kominn að falli.

Um 1982 lauk æfi íbúðarhússins, slökkviliðið fékk æfingu og húsið var svo rifið

 

 

Hlíðarstræti

HLÍÐARSTRÆTI 6

Guðjón - Sigríður - Jóhannes

Börn Rósu Ara: Þorgerður - Sigríður og Bjarni Bogabörn og Eggert og Guðbjörg Þorbjarnar börn. Á myndina vantar, Ara Guðmund og Jóhann Stefán Bogasyni, látnir.

Systurnar: Guðbjörg Þorbjarnar og Sigríður Boga.

Guðjón Þorgerðar byrjar snemma að vinna í frystihúsnu, í móttökunni hjá Per.  Síðan í versluninni hjá EG, á lager og í kjötinu með Didda Friðgeir og Didda Mumma og ótöldum stúlkunum í versluninni.

Byrjar 1959 á námssamningi í rafvirkjun hja Guðmundi Jónssyni rafvirkjameistara, fær útgefið sveinsbréf 1963 og meistarabréf 1966. Vann hjá Rafmagnsverkstæðinu Segull hf í Reykjavík og með þeim á Seyðisfirði í Síldarverksmiðjunni Hafsíld, þá hvarf síldin. Seinna hjá Leifi Haraldssyni rafvirkjameistara á Seyðisfirði við verkefni í Lagarfossvirkjun. Í rúm 8 ár sem rafvirki hjá fyrirtækjum Einars Guðfinnssonar við þjónustu hjá frystihúsi , síldar/loðnu verksmiðju og útgerð. Síðan rekstur á eigin rafmagnsverkstæði.  Flutti til Ísafjarðar 1979.

 

LEGSTEINAR - KIRKJUGARÐAR.

Grundarhólskirkjugarður Bolungarvík. AII-1-27

Ólafía Margrét Helga Arnórsdóttir     F. 4 júní 1896 - D 28 ágúst 1923                        Legstaður óþekktur.

 

 

 

Grundarhólskirkjugarður Bolungarvík B4-2-1.

Grundarhólskirkjugarður Bolungarvík. B5-2-1

Hafnarfjarðarkirkjugarður I 10 - 11

Hafnarfjarðarkirkjugarður F 1 - 20

Akraneskirkjugarður B - 14 Salóme Guðjónsdóttir

Keflavíkurkirkjugarður D 3 - 4.

Ábyrgðarmaður þessarar síðu.

Guðjón Bjarnason

Netfang:

isholm42@gmail.com, gudjon.isholm@gmail.com

Sími:

864 3703

Skilaboð / Athugasemdir

Vinsamlega sendið póst eða skilaboð.