ÓFULLGERÐ DRÖG

 

Breyta

HARALDUR ÍSHÓLM SIGURÐSSON, ÆVIÁGRIP

OG ÖRLÖG SS INDUNA.

 

SS INDUNA

 Ég, Guðjón Bjarnason vissi lengi vel ekki hver faðir inn var.

Ég hafði á fjórða ári verið sendur í fóstur vestur í Bolungarvík til stjúpmóður móður minnar þar sem ég ólst síðan upp. Móðir mín var alltaf sunnan heiða, ég hafði litil samskipti við hana, nema ég hitti hana stundum í heimsóknum. Á mínum yngri árum velti ég mikið fyrir mér hver faðir minn væri, það var lítið um svör.

Það kom þó að því að ég herti mig upp og skrifaði henni.

Hún svaraði með bréfi.

 

Það líða síðan mörg ár, ég er að leita að þessu nafni en ekkert gengur. Þegar börn hermanna eru síðan að finna feður sína fæ ég þrýsting frá dóttur minni. " Fyrst þau geta fundið feður sína hlýtur þú að geta gert það líka ".

Ég fer að herða leitina, senda fyrirspurnir til allra átta, en aldrei finn ég mann með þessu nafni sem væri líklegur, ég set þetta svo aftur í bið, en eitt sinn í fjölskylduboði hitti ég mann sem er mikill áhugamaður um ættfræði ég ber mig upp við hann og spyr hann hvernig og hvar ég gæti fundið mann með þessu nafni og á þessum aldri, sem voru einu upplýsingarnar sem ég hafði um hann. Þessi maður taldi að það væri ekki auðvelt. Það líður ekki langur tími þar til ég fæ frá honum bréf . Hann var búinn að hafa upp á nafni Haraldar og búinn að hafa samband við bræður hans sem ég hitti svo síðar. Átti Haraldur eftirlifandi fjögur systkin sem taka mér ákaflega vel og viðurkenna mig í samfélag sitt. Þetta er á árunum 1998 - 2000. ( Þá er ég orðinn 58 ára )

Þá er ég kominn með nafn á skipi hans og get farið að beita mér meira að leitinni, afla mér upplýsinga um örlög Haraldar og skips hans.

Ég hef fengið ómetanlega aðstoð frá óteljandi aðilum á netinu hef getað komið saman tímalínu um um sögu Haraldar.

Frá fyrstu árum hans styðst ég við frásagnir systkina hans og fjölskyldu, einnig bréf er hann skrifar foreldrum sínun og bróður.

Í þessari frásögn fléttast ævisaga Haraldar örlögum skoska gufuskipsins Induna.

Það sem hér er sagt er alfarið á mína ábyrgð. Ég hef leyfi fyrir sumu, en ef ég hef tekið eitthvað í leyfisleysi ber ég fulla ábyrgð á því.

Ég hef leyfi Magnúsar Þórs Hafsteinssonar fyrir því að taka upp texta úr bók hans Dauðinn í Dumbshafi, þar sem hann fer ítarlega yfir m.a. siglingu skipalestarinnar PQ-13 og þar með örlögum SS. Induna sem Haraldur sigldi með. Mæli ég með því að þeir sem hafa áhuga á frásögnum af Íshafsskipalestunum, lesi bók hans.

Umfjöllun un Induna er á blaðsíðum 15, 151 - 156, 180- 182, 193 - 202, 373. Aftanmálsgreinar ( 225 ) ( 226 ) ( 267 ) . Leiðrétting ( 225 ) Haraldur fæddist 5 mars 1923 og ( 267 ) Guðjón faðir Þorgerðar lést 10 maí 1942.

Einnig hef ég fengið að styðjast við óbirt handrit Alan´s Blyth, Convoy PQ-13, Last Voyage for SS Induna, einnig upplýsingar og myndir í netpósts samskiptum við hann.

 

Haraldur Íshólm Sigurðsson 

Er fæddur í Reykjavík 5. mars 1923.

Foreldrar hans voru:

Kristjana Erlendsdóttir 1898 - 1938  og 

Sigurður Pétur Íshólm Klemensson 1894 - 1970.

 

    Haraldur ólst fyrst upp hjá foreldrum sínum, bjuggu þau á Haðarstíg 4 í Reykjavík.

    Foreldrar hans skilja, er hann þá ásamt Dagnýju systur sinni, sendur í fóstur austur á Efri Gegnishóla  í Gaulverjabæjarsókn, í manntali 1930 er hann skráður tökubarn þar.

     

    Samkvæmt bréfi er hann ritar móður sinni er hann á Gegnishólum 1937.

     

    Hann á að fermast 6. júní 1937. Hann lýkur fullnaðarprófi þar fyrir austan og er hæstur fullnaðarprófsbarna með 8,4 í aðaleinkunn.

     

     

     

                                       24. apríl 1938 skrifar hann Gunnari bróður sínum.

     

    30. nóvember 1939 skrifar hann föður sínum, segir frá sundnámskeiði í Hveragerði. Einnig biður hann föður sinn að útvega sér vinnu,  því í sveitinni sé lítið að hafa.

    Ekki vitum við mikið um veru Haraldar fyrir austan annað en það sem áður er framkomið.

    En vitað er  að hann hafði kynnst þar ungri stúlku er var í vinnumennsku á Ketilvöllum í Laugardal.

    Þorgerður Guðrún Guðjónsdóttir, var fædd á Suðureyri, 14. apríl 1920, látin 2. mars 1971.

    Foreldrar hennar voru Guðjón Bjarnason verkalýðsforingi og kaupfélagsstjóri í Bolungarvík,  fæddur að Hvilft í Önundarfirði, 12. janúar 1885, látinn 10. maí 1942 og kona hans Ólafia Margrét Helga Arnórsdóttir, fædd á Eiði í Hestfirði, 4. júlí 1896, látin í Bolungarvík, 28. ágúst 1923.

    Guðjón kvænist seinni konu sinni Sigríði Bogadóttur   26. september 1925, ólst  Þorgerður  upp hjá þeim.

     

    Haraldur og Þorgerður munu hafa átt  stutt kynni, en um mitt ár 1941 er hann kominn til Reykjavíkur.

     

    Hafði hann komist þar í kynni við sjómann af erlendu skipi er lá í Reykjavíkurhöfn.

    Hét það  Kalev .

     

     

    Þessi vinur hans hvatti hann til að ráða sig á þetta skip, það gerði Haraldur án þess að faðir hans vissi, á þessum tíma var hann sjómaður á togara og úti á sjó þegar þetta gerðist.

    Faðir hans hafði verið mjög andvígur því að Haraldur færi til sjós.

    Haraldur mun hafa haft orð á því að hann vildi afla sér tekna til þess að geta farið til náms.

     

     

    Kalev  er í Liverpool 27. júní 1941, Cardiff 30. júní, siglir þaðan 4. júlí, er komin til Reykjavíkur 13. júlí, fer frá Reykjavík  28. júlí. 

     

    Skipakomubók Reykjavíkurhafnar 13. júlí 1941.

     

    Samkvæmt skipakomubók Reykjavíkurhafnar frá 13. júlí 1941 er Kalev í Reykjavíkurhöfn.

     

    Skipið er í Reykjavík 24. júlí, fer þaðan þann 28. júlí.

     

                       

    Hann sendir ódagsett bréf til föður síns , biður hann að senda sér bækur á heimilisfang í Hull.

                       

    Kalev er komin til Hull 28. ágúst til viðgerðar.

    Viðgerð hafin 29. ágúst, og er lokið 11. september.

    Fer frá Hull 11. september , og er komin til London 22. september.

    Þar mun Haraldur hafa skráð sig af Kalev.                 

    Þann 7. oktober 1941 skráir Haraldur sig á skoskt kaupskip er lá í Croydon í suðausturhluta London, SS Induna, 5086 sml gufuskip, smíðað í Skotlandi 1925, hjá Stephen & Sons Ltd.

    Eigendur :  Maclay & McIntyre Ltd, Glasgow.

    Flestir í 44 manna áhöfn skipsins voru Skotar.

    Skipstjóri á þessu skipi hét William Collins. Hann var 32 ára gamall  og búsettur í Glasgow.

     

    SS INDUNA

     

    Myndin sýnir skipið lesta timbur í Port Alberny Canada sem fara átti til Kobe. Myndin er tekin af áhafnarmeðlim á 30. áratug fyrri aldar.

     

     

    SKRÁNINGARBÓK  INDUNA.

     

    Á þessari síðu sést að síðasta skip er Haraldur var skráður á, áður en hann skráði sig á Induna, var Kalev.

    Skráningardagur 7. okt 1941.

    Hann er skráður þar ESHOLM HAROLD

     

    Þessi mynd er tekin nokkru fyrir stríð . Hún er tekin á River Mersey, byggingin í baksýn er " Liver Building " í Liverpool.

    Induna leggur úr höfn frá Tames ánni í Lundúnum og kemur við í Glasgow og fer frá Skotlandi 3. nóvember 1941 og er komin að ströndum Bandaríkjanna þann 22. nóvember. 

     

    Þessi mynd er tekin 27. nóvember 1941 í New York áður en skipið leggur í síðustu för sína.  Myndin er ekki í góðum focus en hægt mun að sjá breytingar er gerðar hafa verið vegna styrjaldarinnar.  Það er búið að setja 4 tommu byssu á skut og rétt þar fyrir framan " Bofors"  byssu á upphækkaðan pall. Það eru vélbyssugryfjur á þaki brúarvængs á hvorri hlið. Einnig er hægt að sjá björgunarfleka á fljótlosandi brautum sitt hvoru megin við möstrin. Á báðum myndunum sjást aðal björgunarbátarnir hangandi í davíðum  fyrir aftan skorstein og " léttabátur" fram við brú.

    Skipið er hátt á sjónum og myndin hefur verið tekin áður en skipið var lestað farminum sem taka átti til Murmansk.

    Tilgangur ferðarinnar til Bandaríkjanna var að sækja 2.700 tonna farm  af ýmsum hergögnum. Stór hluti af þeim var gaddavír sem settur var neðst í lestar skipsins. Ofan á gaddavírinn var síðan settur farmur af tunnum með flugvélabensíni.  Á þilfarið var svo raðað herflutningabílum. Þeir stóðu sitt hvoru megin utan með lunningum skipsins og bensíntunnum var raðað á þilfarið á milli þeirra.

    Induna er í höfn í New York frá 6. desember, áformað hafði verið að hún færi með skipalest SC-62 sem fór frá Sidney  þann 27. desember og varð fyrir þungum árásum þýskra kafbáta, en Induna varð fyrir töfum í New York og missti af þeirri lest.  Frá stórborginni var síðan siglt til Halifax í Kanada. Komu þeir  til þangað á aðfangadag. Það varð að bíða þar yfir hátíðarnar, eftir því að fá pláss í skipalest til Bretlandseyja.

    Lagt  var  af stað þann 3. janúar 1942, í 25 skipa lest sem fékk einkennisnúmerið SC-63. Skipalestin varð ekki fyrir kafbátaárásum en lenti í afar slæmu veðri á leiðinni. Kannski var það veðrinu að þakka að kafbátarnir gátu ekki athafnað sig. Skipalestin náði til Liverpool þann 28. janúar, en Induna var stefnt til Reykjavíkur, þar sem hafði hún orðið fyrir nokkrum skemmdum í óveðrinu, missti einn björgunarbát og nokkrir hertrukkar sem stóðu á þilfarinu, fóru í sjóinn.  Bráðabirgða viðgerð var framkvæmd í Reykjavík.

    Haraldur Íshólm fór í land þegar skipið var í Reykjavík, og Halldór bróðir hans man eftir að hann hafði komið til foreldra þeirra, sem bjuggu þá á Óðinsgötu 14A, í för með einum skipsfélaga sínum.  Það virðist ekki hafa gengið að útvega það sem þurfti í Reykjavík og var Induna því send til Bretlandseyja. Hún fór frá Reykjavík 15. febrúar í skipalest RU-12, til Loch Ewe og þaðan til Greenock við Glasgow  í Skotlandi þar sem hún lá frá 22. febrúar til 3. mars 1942.

    Þann 3. mars var hún dregin til Gouroch , þaðan sem hún hélt til Loch Ewe og sameinaðist skipalestinni PQ-13. 

    Loch Ewe er fjörður á norðvesturströnd Skotlands, 8 mílna langur og 3 mílna breiður, og var ásamt Clyde og Mersey mikilvægur söfnunar og legustaður þegar skipin söfnuðust saman og þeim var skipað í skipalestirnar. Meðan þeir biðu notuðu nokkrir úr áhöfninni  tækifærið til heimsækja vini og ættingja

    Samkvæmt "Wartime at Loch Ewe".   Í febrúar 1941 byrjuðu skipalestirnar að safnast til Loch Ewe og segir að rúmlega 480 kaupskip og yfir 100 fylgdarskip hafi haft viðkomu þar. Síðasta skipalestin sigldi frá Loch Ewe þann 30. desember 1944.

    Norman Eric Blyth var annar loftskeytamaður um borð. Hann var jafnaldri Haraldar Íshólm - aðeins átján ára gamall en hafði samt starfað sem loftskeytamaður í tæp tvö ár.

    Bæði Norman og Haraldur höfðu skráð sig í áhöfn Induna á sama degi, þann 7. október 1941.

    Norman fór til fjölskyldu sinnar í Dundee. Þegar hann kvaddi yngri bróður sinn á járnbrautarstöðinni þar, sagði hann að för Induna væri heitið til Múrmansk.

    Hann bað bróður sinn um að gæta móður þeirra á meðan hann væri í burtu. Þetta voru tvísýnir tímar og enginn vissi hvaða framtíð styrjöldin bar í skauti sér. Hverjir myndu að lokum standa uppi sem sigurvegarar? Hverjir myndu lifa og hverjir deyja?

    Margir úr áhöfn Induna notuðu tækifærið þegar skipið var í Scotlandi, afskráðu sig og fóru frá borði, aðrir struku hreinlega, sennilega var vitneskjan um að skipið ætti að halda á norðurslóðir og til Rússlands ástæða þess.

    Induna var búið vopnum eins og önnur kaupskip sem sigldu í skipalestum. Vopnabúnaður um borð í flutningaskipunum var oft kominn til ára sinna. Margar af byssunum sem settar voru í þessi skip voru í raun frá árum fyrri heimsstyrjaldar. Vopnabúnaður Induna var dæmigerður fyrir þessi skip. Gömul fallbyssa með fjögurra tommu  hlaupvídd hafði verið sett aftast á skut skipsins. Þar átti hún að vera til varnar kafbátum. Áhafnir þeirra reyndu stundum að ráðast á kaupskip með því að elta þau uppi siglandi á yfirborðinu, og skjóta á þau með fallbyssum sem allir kafbátar voru með á þilfarinu. Framan við fallbyssuna var komið fyrir Bofors loftvarnabyssu á sérstökum palli. Þetta var eina vopnið um borð sem var af nýlegri gerð. Vélbyssur voru síðan í sérstökum byssugryfjum sem staðsettar voru við brú skipsins og frammi í stafni. Til viðbótar byssunum var einnig komið fyrir sérstökum vírabúnaði sem skotið var á loft með flugeldum til að reyna að granda flugvélum sem reyndu að gera lágflugsárásir á skipin þar sem sprengjum var varpað og skotið úr vélbyssum á skipin.  Hugmyndin var að skjóta þessum vírum í veg fyrir vélarnar þar sem þær kæmu yfir skipin. Vírarnir áttu þá að valda skemmdum með því að flækjast í vængjum og hreyflum. Þannig var vonast til að granda mætti flugvélunum, eða fæla flugmenn þeirra frá því að fljúga vélum sínum yfir skipin. 

    Í upphafi styrjaldarinnar sáu áhafnir kaupskipanna oft um vopnin. Eins og gefur að skilja var kunnátta til þess oft af skornum skammti. Þegar leið á stríðið voru því sérstakir skotliðar þjálfaðir til að annast vopnabúnað í kaupskipunum. breski sjóherinn sá breskum skipum fyrir skotliðum, á meðan bandarískir skotliðar sinntu skipum sinnar þjóðar. Skotliðar kaupskipanna heyrðu því undir hermálayfirvöld en ekki útgerðir skipanna og var einn fyrirliði fyrir hverjum hóp sem fór um borð í tiltekin skip. Þetta voru yfirleitt vinsælir menn og boðnir velkomnir um borð í kaupskipin. Sjómennirnir á þeim gerðu sér fulla grein fyrir því að skotliðarnir gátu bjargað þeim á ögurstundu. Skytturnar stóðu vaktir við byssurnar, reiðubúnar að hleypa af ef hætta steðjaði að. Fyrirliði skotliðanna vissi að þetta yrði erfið ferð og hættuleg. Hann lá ekki á þeirri skoðun sinni. Hann var óánægður með að þrír af skotliðunum voru óreyndir að fara í sína fyrstu siglingu. Þetta þótti honum ekki boðlegt þegar um slíka hættuför var að ræða. Því gerði hann strax ráðstafanir til senda einn þeirra í land og fá reyndan mann í staðinn. Reyndar gátu skotliðarnir séð fleiri þöglar vísbendingar um að sú sigling sem þeir væru að leggja í yrði engin skemmtiferð.

    Við komuna um borð í Induna fengu þeir afhenda bunka af hlífðarfatnaði. Þar á meðal var vatnsþéttur lífbúningur sem var appelsínugulur á litinn, ætlaður fyrir þá sem lentu í sjónum, þykk ullarpeysa, há sjóstígvél úr leðri, síð ermalaus gæruleðurvesti og vatnsheldur olíustakkur með hettu. Til viðbótar var deilt út lýsispillum sem í var blanda af þorskalýsi, hákarlalýsi og ólífuolíu sem menn áttu að taka "svo blóðið þykknaði í þeim", eins og sagt var. Sumum klígjaði við þessum pillum og vildu ekki taka þær. Austin Burne og Bernard Kelly félagi hans í skotliðasveitinni fengu þær pillur sem hinir vildur ekki taka. Þeir töldu skynsamlegt að neyta þeirra þó pillurnar væru ólystugar

     

     

     

    Skotin Austin Byrne var einn úr hópi skotliða sem komu um borð í Greenock í Skotlandi.

    Hann vanr tvítugur að aldri og hafði verið kallaður í herinn í október 1941. Hann gekk í flotann og fékk þjálfun sem byssuskytta.

    Um borð í Induna var honum falið að sjá um vélbyssu sem var í gryfju sem búið var að setja upp á öðrum brúarvæng skipsins. Hann var því í góðu sambandi við skipstjóra og aðra yfirmenn á Induna, á siglingunni sem nú fór í hönd.

    ( Ég hef átt í góðu sambandi við Austin, hann er skemmtilegur karakter. Það er meira um hann í undirsíðu :

                                                                                                                         Klippa úr handriti Alan's Blyth

    Um leið og Austin kom um borð var honum sagt að hann skyldi aldrei klæða sig úr, heldur ávallt sofa í öllum fötunum ef ske kynni að skipið yrði skotið í kaf.

     

     

    Skotliðarnir fréttu brátt að skipið ætti að fara til Múrmansk. Þeir fundu gamla landabréfabók í klefa sínum þar sem þeir gátu séð hvar þessi staður væri á hnettinum.

    Haraldur átti 19 ára afmælisdaginn sinn þann 5. mars, á siglingunni frá Glasgow til Loch Ewe.

    Frá Loch Ewe fór skipið 10. mars ásamt hinum skipunum í skipalestinni PQ-13. Induna sem upphaflega átti sennilega að sigla með PQ-8 eða PQ-9 skipalestunum, sem komust klakklaust til Kóla skaga, hafði nú tafist í um tvo mánuði. En þegar þarna var komið sögu var Induna loks reiðubúin að leggja af stað í lokaáfanga ferðarinnar.

     

     

    Það skyldi halda áfram með PQ-13 og nú var Haraldur Íshólm kominn til Hvalfjarðar með félögum sínum á leið til Múrmansk.

     

     

    Meðan á dvölinni í Hvalfirði stóð sendi Haraldur bréf til foreldra sinna,  það er ritskoðað. Þar segir hann föður sínum að hann vilji hætta á skipinu, en fái það ekki.  Faðir hans fór til Hvalfjarðar og reyndi að fá að hitta son sinn en var neitað um það. Sennilega hefur áhöfnum flutningaskipanna í PQ-13 verið meinað að fara í land og hitta fólk þar sem skipalestin var á leið til norð vestur Rússlands. Bretar treystu því ekki að það fréttist að skipalest væri nú að leggja af stað í slíka ferð. Þeir óttuðust að njósnarar á Íslandi kæmu boðum um það til Þjóðverja. Faðir Haraldar vildi koma í veg fyrir að sonur hans færi í þessa ferð. Hann hafði verið því andvígur að Haraldur væri í siglingum á þessum hættutímum.

     

    Annar íslenskur sjómaður réði sig um borð í Ballot, Pétur H Ólafsson 22 ára gamall

    River Afton

     

    Skipalestarforinginn var um borð í River Afton.

     

    Induna var varaskip fyrir forystu skipalestarinnar.

     

    Skipalestin, PQ-13 fór frá Hvalfirði að morgni 18. mars, og sigldi vestur á Faxaflóa  þar sem skipalestinni var raðað upp áður en stefnan var tekin norður með Vesturlandi.

    Var skipunum raðað þannig að 6 skip voru á breiddina og 3 skip á lengdina, fyldarskipin voru á undan og eftir og til hliðar.

     

    Ferðin gekk vel norður fyrir Vestfirði , að kvöldi 19. mars var skipalestin stödd undan Straumnesi við Aðalvík, Þá barst skeyti úr landi.

     

    " IMMEDIATE"

    "PQ 13 AND ESCORT RETURN TO REYKJAVIK FORTHWITH HMS CEILA PASS TO COMMODORE",

    Að morgni 20. mars voru skipin komin aftur á ytri höfnina í Reykjaví. Var talið að hernaðaryfirvöldum hafi borist fregnir af því að kafbátum hafi fjölgað í Norðurhöfum og jafnvel að Tripitz og Scharnhost yrðu send til hafs frá Noregi. Vildu Bretar að Sovetmenn hertu á kafbátaeftirliti í Barentshafi.

    Skipin höfðu ekki langa viðdvöl, lagði skipalestin aftur af stað þann sama dag.

    Þegar PQ-13 var stödd undan Norðurlandi bárust fyrstu vísbendingar um að kafbátar væru framundan.

    Fylgdarskipin voru búin nýrri tækni HF/DF með þeim gátu þau miðað út loftskeytasendingarnar frá kafbátunum.

    Undan Langanesi bættust tundurspillirinn Trindad  og tundurspillarnir Fury og Eclipse til fylgdar skipalestinni. 

    Óveður skall á þann 24. mars, í um 4 sólahringa veltust skipin um í norðaustanbáli sem var hreint fárviðri þegar verst lét. Skipalestin riðlaðist og tvístraðist þegar skipin misstu sjónar hvert af öðru.

    Úrklippur úr handriti Alan's Blyth, Convoy PQ -13  Last voyage for SS Induna.

    Íbúðir undirmanna, háseta og vélaliðs voru framskips, í þröngu og illa loftræstu rými,  og í skut voru klefar fyrir skyttur skipsins og auka mannskap, var vistin ekki góð í stöðugum veltingi og slæmu sjólagi. Vistarverur yfirmanna voru miðskips. Skipverjar höfðu ekki mikil samskipti, aðallega við eldhúsliðið. Samgangur milli vistarvera, fram og afturskips og brúar var enginn neðan þilja, sett var timburbrú með kaðalhandriði ofan á farminn á dekkinu.

    Þegar veðrið gekk loksins niður, var skipalestin tvístruð yfir stórt hafsvæði, kaupskipin reyndu að finna hvert annað og mynda hópa. Induna og Ballot, skip þeirra Haraldar Íshólm og Péturs H. Ólafssonar mynduðu hóp með Empire Starlight og hvalveiðibátnum Silja. Önnur skip voru allflest tvö eða fleiri  saman um 35 til 60 sjómílur frá þeim hóp sem skip Íslendinganna sigldu í. Eitt skip hafði týnst í óveðrinu, var það hvalveiðibáturinn Sulla, var talið að hann hafi yfirísað og sokkið með manni og mús.

    Nauðsynlegt var að reyna að ná skipunum aftur saman til að geta skipað þeim aftur í hóp til að geta verndað þau.   Það mátti ekki nota loftskeyti , því þá gætu þjóðverjar miðað þau út. En þau náðust aldrei öll saman, sum skipin hafði borið mikið af leið var vonlaust fyrir þau að finna hin skipin, Forustuskipið River Afton hafði rekið langt til suðausturs, var komið nálægt Lofot í Norður Noregi, þegar skipstjórinn áttaði sig setti hann þá á fulla ferð og tók stefnuna á Murmansk.

    Induna var þá orðið forustuskip skipalestarinnar.

    26. mars fæddist Haraldi sonur heima á Íslandi.

    Collins skipstjóri Induna var var nú leiðtogi skipahópsins. Hann fyrirskipaði að skipin skyldu sigla eins hratt og auðið var.

    28. mars byrjuðu loftárásir á skipin, fyrsta skipið sem varð fyrir tjóni var Ballot og varð það vélarvana, hluti áhafnarinnar heimtaði að fá að yfirgefa skipið, sá skipstjórinn sig tilneyddan að heimila það, um helmingur áhafnarinnar 16 manns fóru róandi á einum björgunarbátnum og fóru yfir í hvalveiðiskipið Silja. Þeir sem eftir voru um borð hófu að reyna viðgerðir, Pétur Ólafsson var einn þeirra, þeim tókst síðan að koma vélunum í gang og komst til Murmansk, var Ballot fyrsta kaupskip PQ 13 skipalestarinnar sem komst á áfangastað.

    Árásir héldu áfram og Þjóðverjum tókst að sökkva Raceland .

    Flutningaskipinu Empire Ranger var einnig sökkt og áhöfnin tekin til fanga um borð í þýskan tundurspilli.

    29. mars sökkti þýskur tundurspillir kaupskipinu Bateau, aðeins 6 skipverjar komust af

    Induna , Empire Starlight, Mano, Effingham og Dunboyne voru nú komin að ísröndinni, Silja kom upp að Induna og gaf til kynna með ljósmerkjum að skipið væri að verða olíulaust og þyrfti að komast í tog, skipstjóri Induna féllst á það, Induna festist síðan í ísnum og urðu þeir að losa taugina á milli skipanna meðan Induna reyndi að ryðja leið í ísnum, skipverjarnir 16 af Ballot komu síðan yfir í Induna. Áhöfninni á Induna tókst að brjóta rás út úr ísnum og tóku Silja aftur í tog, en við þessar tafir urðu þau viðskila við hin skipin sem losnuðu fyrr úr ísnum . Þegar Induna og Silja losnuðu voru hin skipin horfin og þau orðin ein.

    Austin Byrne var á vakt sinni í byssugryfjunni  á brúarvængnum, hann var þar í góðu sambandi við skipsstjórnendur.

    Collins skipstjóri kallaði á hann og bað hann að sækja yfirvélstjórann, Walter Green, Austin heyrði á tal þeirra ræða ástandið, Collins sagði við vélstjórann að hann vildi fá allt það sem hann gæti frá vélinni, hann tæki fulla ábyrgð á hugsanlegu tjóni á vélinni.

     

    Á næstu vaktaskiptum þegar vélarúmsáhöfnin var á leið aftur eftir frá vistarverum sínum framskips, meðal þeirra var Chileanski kyndarinn Aurelio Gomes Olivares, Austin heyrði þegar skipstjórinn hallaði sér fram yfir brúarvænginn og kallaði til kyndarans, " Chilly, náðu henni upp í ellefu hnúta og þú getur fengið góðan romm skammt " kyndarinn svaraði, " hafðu það whisky og þú getur fengið tólf "   "tólf ? " Já, en fyrir stóran whisky, og ég fæ hann áður en ég fer niður ". " Samþykkt, komdu upp í brú ". Vélarúmsliðið fór nánast aldrei upp í brúna, kyndarinn svaraði,  "Við getum ekki komið upp " " Komið upp "  Vaktin klifraði upp og  skipstjórinn skenkti hverjum manni góðan romm skammt og Olivares fékk góðan whisky skammt.

     

    Collins sagði við kyndarann,  "nú erum við að berjast fyrir lífi okkar, náðu öllu sem þú getur úr henni "

     

    Tuttugu og fimm tonn af kolum þurfti á sólarhring til að ná 9 hnúta hraða, nú bað skipsstjórinn um 12 hnúta. Haraldur Íshólm, kyndarinn ungi frá Íslandi, og félagar hans í kyndirúminu voru nú þeir menn sem líf allra um borð gat oltið á.  

     

    Það tók að hvessa þegar leið á kvöldið og Silja slitnaði aftan úr og hvarf í hríðina og myrkrið, enginn af áhöfninni hafði orðið þess var, Austin hafði verið að koma á vakt og á leiðinni upp varð honum litið aftur eftir skipinu, sá hann þá að dráttartaugin var slök. Skipstjóri og stýrimaður voru báðir á vakt í brúnni og hann tilkynnti þeim hvers hann hafði orðið var. Stýrimaður fór afturá og fékk staðfestingu á að taugin væri slitin.

     

    Skipstjóri Induna var í vanda, hann sagði mönnum sínum að hann gæti ekki skilið áhöfn Silja eftir á hættulegasta svæði í Barentshafi, hann snéri við fyrirskipaði leit, þeir leituðu í um 8 tíma en fundu hvalveiðibátinn ekki. Þeir hefðu væntanlega getað náð sambandi við þá með loftskeytum, en það var ekki leyfilegt, óvinurinn gæti miðað þá út og fundið.

     

    Austin heyrði Collins segja við þá sem voru í brúnni, "mér þykir það leitt herrar mínir en við getum ekki leitað lengur, mér hugnast ekki að skilja þá eftir og mæta örlögum sínum hér í Barentshafi, en við verðum að halda áfram til Murmansk, ég vona að guð veri með þeim"

    Hann bar ábyrgð á eigin skipi þar sem nú voru 66 manns um borð, og tók stefnu á Murmansk.

    Gaf hann fyrirskipun um fulla ferð í átt að Kólaskaga. Þunhlaðið flutningaskipið náði rétt rúmlega 10 hnúta ferð.

     

    Að morgni 30. mars var kafbáturinn U-376 með Friedrich Karl-Marks við stjórnvölinn, í yfirborðinu og skimaði eftir ferðum skipa úr PQ 13.

     

    Heyrðu þeir skrúfu og vélarhljóð nálgast úr norðri, sáu þeir hvar Induna kom siglandi út úr kólgubakkanum. Nokkur reykur kom frá skorsteini skipsins, Collins skipstjóri var að flýta sér, lét hann kynda sem  mest, til að ná sem mestum hraða.

    Kafbáturinn kafaði og kom sér í skotsöðu og skaut 3 tundurskeytum, eitt þeirra hæfði lestina fyrir aftan brú, í þeirri lest  ( no:5 ) var bensín í tunnum, einnig var bensín í tunnum á dekkinu, kviknaði strax í skipinu. Allur afturhluti skipsins varð eins og logandi kyndill. Nokkrir létust strax í sprengingunni, sjómennirnir af Ballot sem höfðu komið um borð frá Silju, og byssuskytturnar, voru í káetum yfir þeim stað þar sem sprengingin varð.

    Austin Byrne var á vakt og var í byssugryfju sinni, það hefur sennilega bjargað lífi hans. Austin heyrði þegar stýrimaðurinn kom og tilkynnti skipstjóra ástandið. " Það hefur orðið fyrir tundurskeyti stjórnborðsmegin, herra. Tundurskeyti í lest númer fimm, mikill eldur og skipið er að sökkva með skutinn á undan." "Gott og vel. Skipaðu öllum að yfirgefa skipið, herra stýrimaður." Sjórinn aftur af skipinu stóð í björtu báli, skutur þess skíðlogaði, menn hrópuðu aftast í skutnum og sprengingin stjórnborðsmegin hafði kastað miklu af gaddavír úr lestinni á bensíntunnurnar sem voru að springa og brenna.

    Norman Blyth, loftskeytamaðurinn ungi var á vakt, kom það í hans hlut að senda neyðarkallið, það var stutt , með breskri kveðju :

    "70,55N,37,18E INDUNA TORPEDOED CHEERIO".

    Á sama tíma eyddu skipstjóri og stýrimaður öllum leyniskjölum, eins og upplýsingum um skipalestina, merkja og dulmálsbókum. Skipstjórinn hafði farið með trúnaðargögnin að bakborðshliðinni í brúnni þar sem hægt var að renna gluggunum niður, sagði við Austin; "Hjálpaðu mér með þetta, drengur. " Ég hjálpaði honum að henda þeim út um gluggann. Þetta voru strigapokar með látúnshringjagötum og einhverskonar fargi í pokanum." Síðan sagði hann " farðu að björgunarbátnum þínum, drengur."

    Þeir skipverjar sem komust að brúnni reyndu að koma út björgunarbátum, þeir voru tveir og áttu að geta tekið 25 manns hvor, gekk það illa bæði vegna veðurs og skipið var farið að halla og var að sökkva. Björgunarflekunum var ekki hægt að koma frá borði.

    20 mínútum eftir að tundurskeytið hæfði og neyðarkallið var sent, var annað neyðarskeyti sent:

    "70,55N, 37,18E INDUNA TORPEDOED ON FIRE AFT SINKING. AM ABANDONING SHIP".

     

    Þessar tvær myndir eru af líkani sem Alan Blyth hefur gert af Induna, af mikilli nákvæmni ( sjá í undirsíðu). Er það augnablikið þegar fyrra tundurskeytið hefur hæft skipið og áhöfnin er að yfirgefa skipið.

    Fyrri myndin sýnir þegar stjórn og bakborðsbátarnir hafa verið sjósettir.

     

    Þetta er nærmynd af stjórnborðsbátnum. Við stýrið í bátnum er annar stýrimaður Induna, Evan Rowlands og um 30 aðrir, ef skoðað er nánar er maður í sjónum við stefni bátsins. Það er Bill Short, sem kom aftur á bátadekkið eftir að bátnum hafði verið slakað, hann ákvað þá að stökkva.  Hann var síðastur til að tala við Norman Blyth loftskeytamanninn, frænda Alan's, sem hafði ákveðið að fara að léttabátnum á brúar þilfarinu - það er sá blái sem hleypur fram dekkið. Mennirnir sem enn eru um borð eru að reyna að sjósetja síðasta björgunarbátinn ( léttabátinn ) við brúna , þegar skipið varð skyndilega fyrir seinna tundurskeytinu sökk skipið strax og þeir sem eftir voru um borð, fórust með því.

                                                                              Endurrit texta sem Alan Blyth setti með þessum myndum,

     

     

    Marks kafbátaforingi fylgdist með

     

    Honum fannst skipið sökkva hægt, hann kom upp á yfirborðið og skaut öðru tundurskeyti að Induna, mikil sprenging hvað við, brak þeyttist hátt í loft upp, skipið sökk hratt að aftan, sporðreistist skyndilega með stefnið upp í loftið rann svo niður og hvarf í hafdjúpin . 40 mínútum eftir að fyrsta tundurskeytinu var skotið, var Induna sokkin.

    Aðeins 10 mönnum tókst að komast í bakborðsbátinn og allir náðu þeir landi. Í stjórnborðsbátinn fóru 34 menn, aðeins 17 þeirra náðu landi lifandi. Með skipinu fórust Collins skipstjóri og allir stýrimennirnir, nema Rowlands annar stýrimaður. Einnig fórust bátsmaðurinn og allir þrír loftskeytamennirnir, fyrsti og annar vélstjóri og tveir kyndarar, fimm hásetar, sex byssuskyttur og 14 af þeim 16 mönnum sem höfðu komið af Ballot.

    Haraldur Íshólm var annar kyndaranna, líklega hefur hann verið á vakt þegar tundurskeytið hæfði skipið.

    Hann var eini Íslendingurinn sem vitað var um að hafi látist í þessum Íshafsskipasiglingum.

    Í júlí 1941 yfirgaf Haraldur Íshólm Sigurðsson Ísland og hélt á hafið, í siglingar. Markmið hans var að afla tekna og komast síðan í nám.

    Starfsæfi hans þar varð aðeins 9 mánuðir.

    Faðir Haraldar átti afmæli þennan dag, 30. mars. 

    Haraldur Íshólm

    Fæddur 5 mars 1923. Drukknaði 30 mars 1942 með SS INDUNA

    Þungt er yfir hugarheimi

    hjartað nísti brandur sár,

    sorg ég innst í sinni geymi

    þó sýnist jafnan glaðar brár.

    Sár þó virðist sonar treginn

    samt ég skil og finn þau rök,

    þú ert sælli vopnlaus veginn

    en verða annars banasök.

     

    Sjómannsblóð í ungum æðum

    ört fram streymdi hverja stund,

    þó að hrökkvi geirs frá glæðum 

    gneistar bæði um haf og grund.

    Út þig vildu örlög kalla

    á þau hörðu forlög manns

    átján vetra vopnlaus falla

    vélum fyrir morðingjans.

     

    Út á hafið hrannar bláa

    hrópar æskumannsins þrá,

    aðalsmerkið Íslands háa

    er að kanna mararlá.

    Sjómannshjartað hrausta, djarfa

    heimtar margan Íslending

    út á haf til hetjustarfa

    þó hættan vaxi allt í kring.

     

    Er dagsins ys og annir dvína,

    ef ég hefi hljóða stund,

    hugsa ég oft um æsku þína,

    ástúð hlýja og glaða lund.

    Ótal margt, sem mörgum sinnum

    mýkti gömul raunasár,

    því vilja tárin vaxa á kinnum

    er veit ég þú ert kaldur nár.

     

    Hvað er lífið; leiftur, blossi

    léttur dans við tímans vað,

    þó að stundum heppnin hossi

    hverfult jafnan reynist það.

    Eitt er þó, sem aldrei dvínar,

    og enginn grandar faraldur,

    minningarnar mætu þínar

    munu lifa, Haraldur.

     

    Frá pabba og systkinum.

    ( Rannveig Guðnadóttir )

     

    Tundurduflaslæðari fann hvalveiðibátinn Silja olíulausan á reki og dró hann til hafnar þann 30 mars.

    Skipalestin PQ 13 var athyglisverð fyrir þrennt.

    Það var í fyrsta skiptið sem bresk og sovésk herskip tóku sameiginlega þátt í aðgerðum í norðurhöfum

    Það var fyrsta hernaðaraðgerðin í norðurhöfum sem þýski loftherinn, herskip og kafbátar voru undir stjórn sama stjórnanda.

    PQ 13 var fyrsta norðurskauta skipalestin sem varð fyrir miklu tjóni  vegna árása Þjóðverja.

    Af 19 farmskipum með dýrmætan varning hafði 5 skipum verið sökkt. Með þeim fórust 100 manns.

     

    INDUNA SÖKKT

    EFFINGHAM SÖKKT

    Græna örin bendir á staðinn þar sem Induna var sökkt.

    Skýrsla skipalestarforingjans á River Afton

    DÁNARVOTTORÐ

    Hér hefur verið stiklað á stóru á sögu skipalestanna, ég hef hér bara tekið úrdrátt úr sögu PQ-13, sem tengist tímanum sem Haraldur var um borð.

    Ég mæli með að áhugasamir kynni sér sér bækur Magnúsar Þórs um skipalestirnar.

    Set hér tengla á kynningu hans á Dauðinn í Dumshafi, upplestur og Týnda púslið.

     

     

     

    FJÖLSKYLDAN FÉKK VIÐURKENNINGU FRÁ KONUNGI

                     Í Lundúnum er minningargarður um sjómenn sem ekki hafa fengið jarðsetningu, hafa bara vota gröf.

     

    Ættingjar Haraldar létu skrá nafn hans á minningaröldur sjómannadagsráðs í Fossvogi, ég hef ekki getað séð að hans sé getið í neinum öðrum íslenskum skrám. 

    Líklegt er að menn hafi ekki áttað sig á að þegar hann skáir sig á skipið er nafni hans breitt á enskan rithátt,  Esholm Harold, eins og sést í skráningarbókinni.

    Magnús Þór gerir honum ítarleg skil í bók sinni.

    Á alþingi 2020-2021 kom fram þingsáætlunartillaga, þingskjal 293 - 264 mál, um að minnast þeirra Íslendinga sem fórust vegna stríðsátaka.

    Ég sé ekki að nafn Haraldar sé þar.

     

     

    Þann 9 maí 2005 var vígður minnisvarði, VON, sem Rússar höfðu látið gera í minningu skipalestanna, með nöfnum allra kaupskipanna sem höfðu farist á árunum 1941 til 1945.

     

    Í tilefni vígslunnar voru 5 fjölskyldum þeirra Íslendinga sem höfðu tekið þátt í siglingum skipalestanna veitt viðurkenningarmerki.

    Tók Dagný systir Haraldar við viðurkenningu Haraldar, mér var síðan falið að varðveita það.

    Breyta
    Breyta

     

     

    Ábyrgðarmaður þessarar síðu.

     

    Guðjón Bjarnason Íshólm

     

    Netfang:

    isholm42@gmail.com.

     

    Sími:

    864 3703.

     

    Ábendingar / Athugasemdir.

    Vinsamlega sendið póst á netfangið eða skilaboð.

     

     

     

               TENGLAR