Ritari þessarar síðu er Guðjón Bjarnason, fæddur 26 mars 1942.
Ég hafði á fjórða ári verið sendur í fóstur vestur til Bolungarvíkur, til stjúpmóður Þorgerðar móður minnar, þar sem ég ólst síðan upp. Þorgerður móðir mín var alltaf sunnan heiða, var hún víða í vinnumennsku á þeim árum. Árið 1944 hafði hún eignast annan son, var hún þar einstæð móðir með 2 börn.
Ég hafði aldrei fengið neinar upplýsingar um faðerni mitt, ég hafði reynt að spyrjast fyrir en ekkert gengið. Nærsamfélagið hafði uppi margar getgátur, sérstaklega tengt fæðingarárinu.
Það kom þó að því að ég herti mig upp í að skrifa móður minni og spyrja hana.
Hún svarar með bréfi.
Það líða síðan mörg ár, ég er að leita að þessu nafni en ekkert gengur.
Ég reyni allskonar leiðir, fer inn á margar leitarsíður og kemst í samband við fjölda manna sem eru í sömu sporum.
Einu vísbendingar sem ég hef eru upplýsingarnar úr bréfi móður minnar.
Ég er að leita að nafni Haraldar og aldri hans, um tvítugt, en verð litlu nær.
Þegar svo börn hermanna eru að finna feður sína fæ ég þrýsting frá dóttur minni,
" Fyrst þau geta fundið sína feður þá hlýtur þú að geta gert það líka "
Það er síðan í fjölskylduboði að þar er áhugamaður um ættfræði, ég ber mig upp við hann, spyr hvernig og hvar ég gæti fundið mann með þessu nafni og á þessum aldri, ég hafði ekki meiri upplýsingar, hann taldi að það væri ekki auðvelt.
Það líður þó ekki ekki langur tími þar til ég fæ bréf frá honum, hann er búinn að hafa upp á nafni hans og hafa samband við bræður hans, sem ég hitti síðan.
Átti Haraldur fjögur eftirlifandi systkin sem taka mér ákaflega vel og viðurkenna mig í samfélag sitt. Þetta er á árunum 1998 til 2000, þá er ég orðinn 58 ára.
Systkyn Haraldar og bræðradætur veittu mér aðgang að og létu mig hafa myndir og bréf sem Haraldur hafði skrifað foreldrum og bróður, einnig þakkarbréf frá Breska konungi.
Upp úr þessu fer ég að herða leitina og afla mér upplýsinga um afdrif Haraldar og skipi hans.
Ég fer síðan að fá miklar upplýsingar frá mönnum sem tengjast skipi Haraldar og sérstaklega góð og ánægjuleg samskipti við skyttu af Induna (Austin Byrne ) sem hafði komist í björgunarbát og komist af. Það er nánar sagt frá honum í textanum um örlög Induna. Einnig hlekkur á samskipti við hann. Hann var alveg sérstakur karakter, þegar hann fékk vitneskju um að verið væri að leita að eftirlifendum af Induna var hann ekki í rónni fyrr en hann fékk að vita hver væri að leita.
Hann skrifaði þá bara forsætisráðherra Íslands ( "the man at the top" ) og bað hann að hafa upp á viðkomandi.
Ábyrgðarmaður þessarar síðu
Netfang:
isholm42@gmail.com
Sími :
8643703
Skilaboð / athugasmdir
Vinsamlega sendið skilaboð, eða póst.